Reykjanes

Reykjanes séð ofan af Valahnúkum.
Hraun og saltfláki á yfirborði á Reykjanesi

Reykjanes er hællinn, suðvestasta táin, á Reykjanesskaga. Nesið er eldbrunnið, þar eru lág fjöll og hnúkar úr móbergi, jarðhiti, klettótt strönd og hraun runnið í sjó fram. Á Reykjanesi ber mest á Skálafelli, sem er hæsta fellið, og Valahnúkum, sem eru ystir. Mikið brotnar úr Valahnúk á hverju ári, enda brýtur hafaldan úr honum nánast í hverju roki. Yst á tánni eru svokallaðar Skemmur. Þar hefur sjór brotið hella undir efsta hraunlagið og hafa hellisþökin sums staðar brotnað niður. Þetta veldur því að þegar hvasst er og álandsvindur (suðvestan) þá brotnar hafaldan með miklum dyn inn í hellana og standa svo gosstrókar upp um götin. Er þetta oft mikið sjónarspil.

Reykjanesvirkjun
Reykjanesviti

Sunnan og austan við Valahnúk er gjá nokkur, sem nefnd er Valborgargjá. Í henni er hraungjóta nokkur eða sprunga með vatni, sem áður var volgt. Yfir hana var byggt hús eða skúr snemma á 20. öld og þar kennt sund áður en sundlaugar komu til sögu í byggðarlögunum á utanverðum Reykjanesskaga og man enn margt eldra fólk eftir því er það var að læra að synda þar. Á ströndinni utan við Valbjargargjá er Valahnúkamöl, stórgrýtt fjara þar sem allir steinarnir eru lábarðir og núnir. Margir telja að nafnið Valbjargargjá sé afbökun, því að Valahnúkur heitir líka Valabjörg, og gæti gjáin þá augljóslega heitið Valabjargagjá, sem hefði afbakast í Valbjargargjá og Valborgargjá.


From Wikipedia, the free encyclopedia · View on Wikipedia

Developed by Tubidy