Sameind

Þrívíð myndræn framsetning á fosfórjón.
Þrívíðar (til vinstri og í miðju) og tvívíðar (til hægri) framsetningar terpenoíð-sameindarinnar atísan.

Í efnafræði er sameind (sjaldnar mólekúl) skilgreind sem nægjanlega stöðugur rafhlutlaus hópur tveggja eða fleiri frumeinda með fasta rúmfræðilega skipan sem sterk efnatengi halda saman. Hana má einnig skilgreina sem einingu tveggja eða fleiri atóma sem deilitengi halda saman.[1] Sameindir greinast frá fjölatóma jónum í þessum stranga skilningi. Í lífrænni efnafræði og lífefnafræði er merking hugtaksins sameind víðari og nær einnig til hlaðinna lífrænna sameinda og lífsameinda.

Þessi skilgreining hefur þróast með vaxandi þekkingu á byggingu sameinda. Fyrri skilgreiningar voru ónákvæmari og skilgreindu sameindir sem minnstu eindir hreinna kemískra efna sem enn hefðu samsetningu og efnafræðilega eiginleika þeirra.[2] Þessi skilgreining reynist oft ótæk því mörg algeng efni, svo sem steindir, sölt og málmar eru úr atómum eða jónum sem ekki mynda sameindir.

Í kvikfræði lofttegunda er hugtakið sameind oft notað um hvaða ögn á loftformi sem er, óháð samsetningu.[3] Samkvæmt því væri minnsta eind eðallofttegunda talin sameind þótt hún sé aðeins úr einu ótengdu atómi.

Sameind getur verið úr atómum sama frumefnis, eins og á við um súrefni (O2), eða ólíkum frumefnum, eins og á við um vatn (H2O). Atóm og flókar sem tengjast með ó-jafngildum tengjum svo sem vetnistengjum eða jónatengjum eru venjulega ekki talin stakar sameindir.

Ekki er hægt að skilgreina dæmigerðar sameindir fyrir jónísk sölt og deilitengis-kristalla sem eru samsettir úr endurteknu mynstri einingarsella, annaðhvort í fleti (eins og í grafíti) eða þrívíðu (eins og í demanti eða natrínklóríði). Þetta á einnig við um flest þéttefni með málmtengjum.

  1. Snið:GoldBookRef
  2. Molecule Definition (Frostburg State University)
  3. E.g. see [1]

From Wikipedia, the free encyclopedia · View on Wikipedia

Developed by Tubidy